Nýár

Gleðilegt ár öllsömul.

Að þessu sinni eyddi ég hinum árlegu áramótum heima hjá Dodda og Allý ásamt Ragga sem sjoppaði inn stærsta turkí á Íslandi. Hann var svo stór að Doddi stóðst ekki freistinguna á því að setja hann á hausinn á sér líkt og Joey í Friends meðan hann dansaði Fugladansinn.
Það var samt ekki kastaníubrúnt bragð af kálkúninum, heldur líkara smjörþef af himnaríki. Enginn náði samt 2 kg takmarkinu á mann til að klára hræið og því verður boðið upp á kalkún klukkan 18 á hverjum degi út Janúar hjá þeim skötuhjúum.

Allý náði að segja lélegasta brandara ársins um klukkan 00:03, sá brandari verður ekki hafður eftir hér enda lét ég alla heita því að þessi brandari yrðu hvorki mæltur né ritaður næstu 50 árin. Það er því tilgangslaust að vera með fimmaurabrandara á þessu ári.

Við piltarnir skruppum svo í bæinn þar sem við áttum von á múgsefjun og íslenskum fylleríisháttum en það kom nú annað upp á daginn. Við gátum stormað inn á Sólon eins og heiðursmenn, sest við borð og fengið okkur öl. Við vorum ekki lengi að átta okkur á því að Íslendingar voru í raun í miklum minnihluta þarna inni – sem var fínt. Við spjölluðum heillengi við hóp af fólki frá Englandi sem dvaldist hér yfir áramótin, alger snilld bara.

Allt í allt fín áramót og grunar mig að hér sé komin hefð sem vert væri að endurtaka að ári, jafnvel með fleira fólki sem þorir að brjóta upp foreldrahefðina, sýna vilja í verki og vera sjálfstæðar heildir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *