Kaupsamningur

Ég fór og undirritaði kaupsamningin í gær. Hélt ég væri orðin alltof seinn þar sem ég sat fastur á öðrum fundi en kom sem betur fer á undan seljandanum.
Fasteignasalinn bauð okkur velkomin inn á skrifstofuna sína og ég settist á vitlausan stað. Boðið var upp á kaffi sem ég þáði með þökk, til þess eins að hella hluta af því niður yfir eitthvað af þessum mega mikilvægu pappírum nokkrum mínútum síðar.

Ég áttaði mig fljótlega á því að fasteignasalinn virðist komast að mestu leyti í gegnum sitt starf með tveim setningum; “Já, einmitt” og “Það væri frábært”.

Ég: Færðu þessa tölu út frá þessum hérna?
Fast.sali: Já, einmitt.
Ég: Og, á ég þá að skrifa undir hérna?
Fast.sali: Það væri frábært.

Eftir að vera búinn að skrifa nafn mitt oftar en almennt getur talist heilsusamlegt tjáði fasteignasalinn mér að mínu hlutverki væri lokið. Í stressi mínu hrifsaði ég til mín öll gögn og möppur sem lágu fyrir framan mig, tók í spaðan á liðinu með bros á vör og stormaði út. það var ekki fyrr en ég var mættur aftur í vinnuna sem ég sá að fasteignasalinn hafi hringt tvisvar.
Ég hringdi því tilbaka:

Fast.sali: Getur verið að þú hafir tekið plastmöppuna mína?
Ég: Já, sennilega. Ég skal skutla þessu til þín aftur sem snöggvast.
Fast.sali: Það væri frábært.
Ég: Já, einmitt

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *