Dauðaganga

Ekki hef ég lagt það í vana að tíunda atburði helgarinnar hér, ætla heldur ekkert að byrja á því núna. En gönguferð sem getur ekki flokkast undir neitt annað en dauðagöngu var framkvæmd aðfaranótt sunnudagsins af ykkar einlægum.

Þegar ákveðið var að slá á djammið, enda farið að slaga í þrettánda klukkutímann hjá sumum, var farið að falast eftir leigubíl. Þar sem ekki þykir æskilegt, er í raun alveg bannað, að keyra fullur var leigubílaröðin lengri en hollt getur talist. Eins og vanalega um helgar skyldi ég rökhugsunina eftir heima, enda þarf ég á henni að halda á virkum dögum og vil ekki týna henni gersamlega innan um glaseygð borgarbörn helgarnæturinnar.

Því ákvað ég að labba heim.

Svosum ekkert að því, mér þykir fínt að rölta heim eftir djammið, ferskt loft og gefur mér tækifæri að ná áttum áður en erfið en skilvirk vinna við niðurbrot á alkóhóli hefst. Það viðraði vel til gönguferða og ég rölti galvaskur af stað, sveiflandi poka sem ég virðist hafa gleymt að innihéldi hamborgara og franskar. Um leið og ég gekk yfir bílastæði Hallgrímskirkju var líkt og ég hefði vakið reiði einhvers, veðrið breyttist úr færanlegu logni í urrandi stórhríð.

Ég hneppti að mér jakkanum og hélt áfram, en smám saman hægðist á för minni, ég hélt hendinni móti stingandi broddum hríðarinnar til að hlífa andlitinu. Að lokum gafst ég upp og skýldi mér í hurðargati, ég var einn, yfirgefinn og óelskaður. Eftir nokkrar mínútur og eitt vægt taugaáfall ákvað ég að drulla mér heim, þetta skyldi hafast. Restin af leiðinni var svo farin í nokkurskonar kóma og ég vissi ekki af mér fyrr en ég stóð í holinu heima, með þykkt lag af snjó utan á mér öllum.

Raunveruleikinn vakti mig svo á sunnudeginum og ég horfði á vídjó með rökhugsuninni minni.

4 thoughts on “Dauðaganga

 1. Anonymous

  Þú verður að fyrirgefa en mér finnst eitthvað roslega fyndið við þennan göngutúr! Ég er ekki viss hvað en ég hló upphátt, aftur! Við lestur færslunnar Kveðja, Hadda

  Reply
 2. Anonymous

  Þetta minnir mig nú bara á þegar ég var að labba á milli bæja í sveitinni forðum daga…. að vísu hvorki drukkinn (það kom seinna) né með Hammara og Franskar í plasti (í mestalagi 2ja lítra ísbox, ring any bells, Begga? ef þú ert að lesa þetta).

  -sigrey

  Reply
 3. Anonymous

  Þetta minnir mig einnig á eitt gott vetrarkvöld er við vorum í MA. Man ekki betur en við höfum verið örfá heima hjá mér og ákveðið svo að fara í annað partý.
  Á leið okkar urðu björgunarsveitir og lögregla sem voru að keppast við að hjálpa bílum að komast leiða sinna – við hoppandi hamingjusöm í einu mesta fárviðri sem hefur komið á Akureyri í háa herrans tíð.

  Enda gleymum við sennilega seint flóka-svipnum á nýja staðarhaldaranum sem var að sjálfsögðu búinn að blása allt af og bjóst ekki við nokkurri hræðu.

  /robbik

  Reply
 4. Anonymous

  Ég var nú ekkert að springa úr gleði meðan á þessu stóð og sá ekki alveg húmorinn.

  En geri það að sjálfsögðu núna eftirá…

  /robbik

  Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *