Mikill Mánudagur

Miðað við mánudag afrekaði ég heljarins helling í dag. Fór með pakka fyrir karl föður minn sem spókar sig um á speedo á Kanarí þessa stundina. Flottur karlinn. Svo fór ég í passamyndasjálfsala sem er ævintýri út af fyrir sig. Það er eitthvað svo óeðlilegt að troða sér inn í lítinn klefa innan um múg og margmenni til þess eins að taka myndir af sjálfum sér. Líkt og ég haldi að ég sé mikilvægasta persónan í verslunarklasanum og þurfi mynd til að sanna það.

Sótti um vegarbréf hjá Útlendingastofnun, skilst það sé vissara að hafa slíkt til reiðu þegar ferðast er með Höddunni, því þó við séum að fara til London er allt eins víst að við endum fyrir utan svæði sem í daglegu tali kallast Evrópa.

Það sprakk hjá mér á föstudagskvöldið, þið getið rétt aðeins ímyndað ykkur ánægjuna sem skein úr andlitum okkar. Ætlaði svo að láta gera við dekkið í dag þegar mér var tjáð, með mikilli sorg, að dekkið væri ónýtt. Veit ekki hvernig það gat gerst og var ekki alveg til í að kaupa mér varadekk fyrir 9000 kall. Sem betur fer tók ég upp á því að hugsa aðeins og mundi að ég á ein 4 sumardekk undan Corollunni sem duga prýðisvel sem varadekk. Ekki að ég þurfi fjögur varadekk, illa orðuð setning. Nenni ekki að breyta henni en nenni vel að skrifa aðra setningu til að útskýra þá fyrri.

Bölvað þvaður þessi færsla, er bara heima, nýbúinn í baði og er að hlusta á Tom Waits. Brátt er það bara nýumbúið rúmið að halda áfram að lesa Deception Point eftir Dan Brown. Ljúft.

4 thoughts on “Mikill Mánudagur

 1. Anonymous

  Djöfulli er dýrt að fara á kaffihús með þér maður!! Ha! 30.000 kall. Legg ekki meira á ykkur………… HH

  Reply
 2. Anonymous

  Heldurðu að það hafi ekki sprungið hjá mér líka! Í gærkvöldi hvellsprakk hjá mér því ég keyrði eiginlega smá á grjót, munaði örugglega ekki meira en 1 cm að ég hefði sloppið!! En dekkið er ónýtt… Meira vesenið að standa í svona rugli í úrhellisrigningu og roki.

  Helga Björg

  Reply
 3. Anonymous

  Ég myndi ráðleggja þér að slaka á næsta mánudag svo þú getir eitthvað bloggað það sem eftir er af vikunni:-) HH

  Reply
 4. Anonymous

  Hehe, já, ofreyni mig á mánudegi og er púnkteraður út vikuna.

  Nei annars, búið að vera brjálað að gera hjá mér alla vikuna, sem er vel. Reyni að hamra saman einhverju fljótlega, til dæmis um baráttu krullótta fyrir stærra hárneti í öll frystihús landsins.

  /robbik

  Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *