Þvottavél

Ég þoli ekki þvottavélina mína. Hvað er hallærislegra en að pirrast út í þvottavélina sína. Þvílíkir hvunndagshlutir eiga ekki skilið að fá hluta af andlegri orku minni til umsjónar.

Hún er lítil og hún er ljót.

Hún þvær í rauninni ekkert fyrir mig heldur bleytir bara fötin mín og hristir þau til. Ég get alveg eins tekið óhreina þvottinn, skellt honum í baðkarið, hrært með trjágrein og hengt hann síðan upp í helvíti til þerris.

Vegna þess hversu lítil og ljót hún er get ég heldur ekki losað mig við hana. Ein hún situr í þvottahúsinu, minni að stærð og afli en allar hinar þvottavélarnar. Greyið gerir sitt besta í að vinda þvottinn minn og ég finn hversu örmagna hún er þegar ég kem til að hengja þvottinn upp og troða hana smekkfulla af nýjum. Ég kem og stjórna henni af mikilli harðstjórn 2 daga í einu og læt svo ekki sjá mig nokkra daga þar á milli. Skil hana eftir eina til að oxast úr minnimáttarkennd gagnvart öllum hinum fullþroskuðu þvottavélunum.

Ég er að rökrétta fyrir sjálfum mér að ég þurfi ekki að eyða tugum þúsunda í nýja þvottavél. Frekar geng ég um þangað til ég lykta eins og úldið kjötstykki marinerað í kattarhlandi en að kaupa mér nýja vél. Hver veit þá nema ung dama með yndislegan húmor og laus við allan ljótleika leyfi mér að þvo hjá sér.

One thought on “Þvottavél

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *