Nýji Alpine spilarinn minn

Fór eftir hádegi að kaupa mér CD/MP3 spilara í bílinn, spilari sem ég var búinn að kynna mér og leist vel á. Spilarinn kostar 34.900 en mér tókst að fá hann á 27.900 með fallegu brosi og kanthúmor. Þeir skelltu spilaranum í á korteri og ég keyrði heim með hugann á bleiku sæluskýi hlustandi á Dansaðu fíflið þitt, dansaðu, með Jagúar. Hellti mér upp á kaffi og skoðaði í gegnum leiðarvísinn meðan ég brenndi nokkur MP3 lög á disk til að fara með í prufuakstur.

Þegar diskurinn var tilbúinn og ég taldi mig fullbúinn í að stjórna öllum mögulegu fídusum á spilaranum ákvað ég að fá mér bíltúr. Voða er gaman að kaupa sér nýjar græjur. Ég settist inn í bíl, setti rafmagnið á og hlustaði ringlaður á hljóð sem líkist því þegar verið er að svíða húð á heitum fjörusteini. Sekúndum seinna stari ég beint út um framrúðuna. Frosinn meðan rafmagnsreykur stígur upp úr mælaborðinu hjá mér. Þetta er ekki að gerast. Á minni tíma en tekur að blikka augunum stökk ég út úr bílnum og með vandræðalegum andlitsgrettum reyndi ég að ná tökum á aðstæðum. Gæti verið að ég hafi öskrað smá.

Í gríðarlegri örvilnun hljóp ég og bankaðu upp á hjá nágranna mínum. Hann er Snigill og öryggisvörður. Honum tókst að ná mér niður á jörðina, enda hátt í 2 metrar á hæð, og fullvissa mig um að öryggi hefði farið. Ég fór inn í íbúð og hringdi í Nesradíó og sagði frá hvað hefði gerst meðan ég horfði út um baðgluggan og beið eftir að bíllinn minn myndi sprengja sér leið til helvítis. Þeir sögðu mér bara að koma með bílinn – eins og ekkert væri sjálfsagðara en að keyra bíl sem nýbúið er að rjúka úr.

Ég aftur kominn út í bíl og starta honum. Eins og vanalega ætlaði ég að setja í R og bakka út úr stæðinu. Setja í R. Setja í eitthvað annað en P. Nei. Ekki hægt. Kem ekki bílnum úr park. Hringdi aftur í Nesradíó, í þetta skiptið úr farsímanum mínum:

“Já, ég hringdi hérna áðan þar sem bíllinn minn reyndi að kveikja í sér og mig með.”
“Já sæll”
“Ég kem honum sko ekki úr park og kemst því hvorki lönd né” – BÍBB.

Síminn minn batteríislaus. Vei. Ætli lofsteinn hrapi nokkuð á mig meðan ég hleyp yfir í íbúð til að hringja úr fastlínu. Djí. Nesradíó sögðu mér að bíða meðan þeir sendu mann á staðinn. Nú er ég aftur að fletta í gegnum leiðarvísinn og athuga hvort sé nokkur einhver klausa um þetta, eitthvað í líkingu við: “Your car electricity fails to materialize itself and tries to smoke you to death”, þar sem svarið yrði sennilega “Your pretty much fucked, dude”. Í bílnum með viðgerðarmanninum frá Nesradíó, sem þurfti að fara tilbaka og sækja fleiri tól, spurði ég hvort þetta gerist nokkuð oft. Svarið var þá að í þau 10 ár sem hann hefði unnið þarna hefði svona lagað einu sinni gerst. Vá, takk.

Viðgerðarmanninum tókst að koma mínum bíl í gír og aftur til þeirra. Með hluta af leiðslunum í mælaborðinu hjá mér bráðnaða saman fékk ég annan bíl. Þegar ég settist upp í lánsbílinn öskraði viðgerðarmaðurinn á mig að starta honum ekki. Guð, heldur maðurinn að ég kveiki í þessum bíl líka.

“Sko, þú þarft að setja rafmangið á og ýta svo fjórum sinnum, fjórum sinnum, á þennan takka.”
Er maðurinn ekkert að grínast.
“Ok. Hvað gerist annars, læsist bíllinn, herðist öryggisbeltið fast að og svefnlyf kemur út um loftræstinguna?”.
“Uh, nei. Hann fer bara ekki í gang”.

Nú sit ég bara heima og þori varla að fara út úr húsi. Bíð eftir að þeir hringi í mig og segist vera búnir að laga bílinn minn. Þá get ég kannski skotist á honum og látið einhvern opinberan starfsmann keyra aftan á mig.

6 thoughts on “Nýji Alpine spilarinn minn

 1. Anonymous

  Þetta er sennilega einhver sú alfyndnasta bloggfærsla sem að ég hef lesið,
  ég er annars hættur að leggja bílum fyrir utan hjá þér, þetta er greinilega leikvöllur djöfulsins
  JFK

  Reply
 2. Anonymous

  Hressandi saga… þarftu ekki bara að kaupa þér svona grænan ipod-bíl, þá muntu hljóta virðingu jeppabílstjóra sbr. tv-reklam.

  mun þetta jäppordaiza norður-ferðinni?


  f.willy

  Reply
 3. Anonymous

  AAARGH þetta var nokkuð fyndin saga því miður… alltaf gaman að hlæja hressilega að óförum annara.

  -halez

  Reply
 4. Anonymous

  Nei, kominn með bílinn aftur í hendur og því er norðurferð enn á áætlun. Nema bílinn minn springi á næsta rauða ljósi.

  /robbik

  Reply
 5. Anonymous

  hehehe, magnað að lenda í þessu. Ég sá einu sinni bíl sem að hafði kviknað í, kom meira að segja í fréttirnar fyrir vikið…ég sko.

  -typpalingur

  Reply
 6. Anonymous

  Arrrrgh!! Ég öskraði úr hlátri. Þetta var akkúrat það sem ég þurfti eftir annars frekar ömurlegan dag. Hehehe ég er enn að flissa:)

  -ally

  Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *