Páskar, ha!

Páskahelgin var með rólegasta móti hjá mér. Var á vakt alla páskana þannig að þeir fóru að mestu leyti í, já, að vera á vakt. Ætla að taka páskafríið út um næstu helgi á Akureyri og hjálpa bróður mínum að flytja. Tók karatenámskeið á Internetinu þannig að ég er við öllu búinn ef mér dettur í hug að kíkja á næturlífið á Akureyri.

Fór í afmæli á miðvikudagskvöldið. Seinna um kvöldið kíkti ég í fyrsta skiptið inn á stað sem kallast Rex. Var þar í um fimm mínútur og þarf ekkert að prófa þann stað aftur.

Nafni minn Fischer hefur skemmt landanum um páskana. Fréttaflutningur af lendingu hans á Reykjavíkurflugvelli var jafn vandræðalegur og hlandblautur Húsvíkingur á Lækjartorgi á þjóðhátíðardaginn. RÚV hafði allavegana vit á því að láta íþróttafréttamann lýsa þessu þar sem þeir eru vanir því að fylla upp í eyður með innantómu blaðri. Þessi koma hans til landsins var jú jafn spennandi og hálfleikur í fótbolta.

Fólk er að fússa yfir skoðunum hans og yfirlýsingargleði. Það er til ein lausn á því: HÆTTIÐ að taka viðtal við hann. Mér er alveg sama þótt hann sé hérna. Leyfum honum að kaupa hús á Kjalarnesi og vinna við klukkuna sína. Látum hann bara í friði.

Spurningin er hins vegar AF HVERJU við vorum að gera þetta. Sjénsinn að við séum að þessu af einskærri góðmennsku og þeirri staðreynd að hann hafi teflt hérna í den. Það liggur eitthvað meira á bakvið þessa ákvörðun og það fáum við Íslendingar að vita síðar.

Skák og mát.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *