Klippa sítt að aftan takk

Það er aðeins til ein nothæf tegund af uppþvottaburstum. Nú á ég þrjú svoleiðis stykki. Heppin ég.

Ég er með þrálátan þurran hósta sem þróaðist uppúr tveggja daga hálsbólgu sem ég var með fyrir helgi. Hvað segið þið við því læknaperrarnir ykkar? Oft reyni ég að halda aðeins niðrí mér hóstanum og gef í staðin frá mér frygðarstunur og kippist…nei, bíðum við, er að rugla saman tveim sögum hérna.Tek stundum óskarsverðlauna hóstasenur sem enda á því að listaverkin hrynja af veggjunum hjá mér og himingáttirnar opnast. Engu líkara en verið sé að rífa nýtt rassgat á sjálfan Satan.

Einhver sagði mér að það væri gott að reykja til að losna við svona hósta. Eða fær maður svipaðan hósta þegar maður reykir. Annað hvort.


Nágrannakonan mín stóð í andyrinu þegar ég kom heim áðan úr 10-11. Já, er ég eini maðurinn á Íslandi þar sem debetkorið virkar ekki í svo kölluðum klukkuverslunum? Debetkortið mitt virkar allsstaðar annarsstaðar en í 10-11, 11-11 og Orkunni. Þeir eru greinilega vanir þessu í Lágmúla því þar eru þeir með gsm-posa til reiðu fyrir fólk með fjölfatlað debetkort.

Allavegana, þá hafði nágranni minn læst sig úti, sagði mér að hún væri að bíða eftir lásasmiðnum. Æi greyið hugsaði ég með mér meðan ég labbaði upp stigaganginn. Svo þegar ég stóð fyrir utan hurðina hjá mér og stakk hendinni í vasann til að ná í húslyklana, eins og ég geri svo gjarnan þegar ég stend eins og fábjáni fyrir framan hurðina mína, fann ég hvergi lyklana.

Ég týni mjög sjaldan lyklunum mínum og því fæ ég nettan snert af móðursýkiskasti þegar það gerist. Sérstaklega þegar ég er EKKI INNI í íbúðinni. Ef ég er inni hjá mér get ég verið nokkuð viss um að húslyklarnir mínir séu það líka. Annars væri ég varla inni hjá mér Einstein. Þá byrja ég að ráfa um íbúðina í sífellt hraðari skrefum, eins og lyklarnir séu sífellt að skipta um felustað.

Það er tvennt sem ég verð alltaf að vita um og það er veskið mitt og húslyklarnir. Annars fúnkera ég ekki sem einstaklingur.

Stóð ég sumsé fyrir utan íbúðina mína áðan og káfaði á sjálfum mér í gróskafullri leit að lyklunum. Hugsaði með mér að það væri þá ekki langt í lyklasmið. Væri hálf skondið ef grunlaus lyklasmiður kæmi í útkall og á sama tíma hafi íbúandinn á móti týnt sínu setti. Fann þá loks í innkaupapokanum?!


Ein af mínum bestu vinkonum er flutt af hámenningarsvæði djúpt í Borgarfirðinum og hingað í alþjóðamenninguna. Gaman að hafa hana í göngufæri og í gær elduðumst við saman ásamt kaupmanninum við brautina miklu. Sjálfur lagði ég til hvítvínið og saltið. Þannig að næst þegar mig vantar salt í hafragrautinn rölti ég barasta til hennar og næ í mitt eigið.

Að lokum er gaman að segja frá því að ég er að fara í klippingu á morgun. Fyrir þau ykkar sem hafa ekki séð mig í smá tíma er ég kominn með þó nokkurn lubba sem fer eilítið í pirrurnar á mér. Smellti af mynd fyrir ykkur.

Bendi á umrætt svæði svo við séum öll með á nótunum hvaða lubba ég er að tala um.

Veit ekki hvernig ég ætla að klippa mig en það verður allavegana ekki snípstutt. Pósta sennilega mynd á morgun þar sem við höfum öll svo gaman að svona “before and after”.

Þessi klipping verður minn hvíti svanur. Hver haldiði svo annars að komi til með að vera í rakarastólnum á undan mér – nú hver önnur en fyrrverandi Borgfirðingurinn, lítill heimur huh!

4 thoughts on “Klippa sítt að aftan takk

 1. Anonymous

  Ég get líka alveg boðið í grautinn ef ég má notast við þitt salt! Sjáumst á morgun, ég skal verma stólinnnnnn, litli heimurinn er skemmtilegur:ö)
  HH

  Reply
 2. Anonymous

  Ylvolgur rakarastóll og appelsín í gleri. Get ekki beðið.

  Voðalega er ég með stórt nef eitthvað…

  /robbik

  Reply
 3. Anonymous

  Ég fékk netta ‘gleyma-lyklunum-fóbíu’ eftir ofbeldisdjammið okkar þarna um daginn. Klóraði mér í hausnum smá stund varðandi vandamálið og greip á það ráð að sauma varalykla inní buxnastrenginn á öllum buxunum mínum, þar sem, lets face it, litlar líkur eru á að ég yfirgefi slottið ber að neðan. Jahh það hefur svossem komið fyrir, en þá var ég ekki heima hjá mér, og var mjög mikið að flýta mér þar sem náungi sem átti allsekki að koma nærri því strax heim, kom heim.

  Aðal vandamálið með innsaumuðu lylana er að núna má ég ekki gleymna að taka uppsprettinálina með mér út.

  -sigrey

  Reply
 4. Anonymous

  Bwahaha. Þetta slær gersamlega út sögunni af því þegar ég fór í Húsasmiðjuna með inneignarnótu úr Byko…fattaði það í röðinni og laumaðist í burtu og setti vöruna aftur á sinn stað og hljóp út.

  /robbik

  Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *