Titill

Gleðilegan hænsnadag. Veit ekkert hvort það sé hænsnadagur í dag eða hvort hænsnadagur fyrirfinnist einhversstaðar á jarðríki. En ef hann er til og er í dag þá óska ég ykkur öllum til hamingju.


Mörg ykkar vita að ég vinn mest megnis fyrir framan tölvu. Í bás. Mörg ykkur myndu líka halda að þetta væri nokkuð slysafrítt umhverfi. Ekki fyrir mig. Fyrir mig er þetta heill frumskógur fullur af slysahættum, eins og eftirfarandi tvö dæmi sýna.

Við erum með svona nýmóðins iðnaðarprentara, laser og lit og alles. Hann getur prentað á báðar hliðar þannig að blaðið kemur út áprentað öðru megin og prentarinn dregur það síðan inn aftur og prentar hinum megin. Hvað gerist í millitíðinni er einungis fyrir fjórðungsmenntaða verkfræðinga að nenna að skilja.

Talandi um verkfræðinga, þá er einn sem heldur reglulega fundi sem ég þarf að mæta á. Sjálfur drekkur hann ekki kaffi en á fyrsta fundinum sá hann sig tilneyddan til að hella upp á kaffi fyrir fundarlimi. Verkfræðingur að hella upp á kaffi sem drekkur ekki kaffi sjálfur getur engan vegin vitað á gott. Til að spara tíma ákvað hann að nota bara helmingi minna vatn en sama magn af kaffi. Við kláruðum allt fundarefnið á tuttuguogþrem mínútum.

Allavegana, þegar ég þarf nauðsynlega að prenta eitthvað út, t.d. ljóð eftir sjálfan mig, sendi ég prentarabeiðni frá vinnustöðunni minni og rölti svo að prentaranum. Hann er þá oftast nýbúinn að prenta á aðra hliðina. Þá legg ég hendina nálægt blaðinu, til að vera viss um að ná því örugglega þegar það kemur fullprentað út eftir aðra umferð. Veit ekki hvort ég haldi að prentarinn spýti blaðinu út af þvílíkum krafti að ef ég næ því ekki í fyrstu atrennu hverfi blaðið inn í óskilgreinda vídd. Vídd fulla af trjám sem hafa látið lífið svo við gætum skeint okkur og vilja ekkert annað en dauða fyrir allt mannkyn.

Þannig að ég er með fingurnar á mér nálægt, mjög nálægt, kantinum á pappír sem er í þann mund að fara dragast á sem hagkvæmasta máta inn í prentarann aftur.

Við vitum öll hvað gerist þegar maður strýkur fingrinum eftir kantinum á pappírsblaði. Nóg sagt.


Í morgun hnerraði ég allhressilega. Þegar ég er nýbúinn að hnerra hefst örvæntingarfull leit að slummunni. Fyrir mér er leitin að horslummunni oft skemmtilegri og meir spennandi en hnerrið sjálft, og þó getur hnerrið veitt allt að 25% fullnægingu í einstaka tilfellum.

Hvað kallast annars hljóðið sem heyrist þegar maður hnerrar? Atsjú?

Ég er heldur aldrei viss hvort einhver slumma hafi spýst út um nasaholurnar á mér eður ei. Byrja samt alltaf á að líta í klofið á mér því mín versta martröð er að labba um allt með horslummu lekandi á milli lappanna á mér hálfa leið niður á hné.

Fann ekki neitt og áleit sem svo að þetta hafi verið þurr hnerri. Byrja að pikka á lyklaborðið mitt og ýti með vísifingri vinstri handar á bókstafinn ‘B’.
Guð minn góður í glerkrukku.
Yfir hálfi bjéinu og lekandi niður á milli ‘V’ og ‘B’ er þessi líka vænasta slumma.

Nú hefst hreinsunarferlið og ég byrjaði á að fjarlægja bilslánna (e. space bar) til að hafa betri aðgang að ‘B’ hnappinum (takkanum, lyklinum?). Hann reyndist þrautinni þyngri og þurfti ég að grípa til viðeigandi skrifstofuverkfæris til að ná bjévítans bjéinu burtu.

Með andlitið beint yfir lyklaborðinu og rauðan penna þvingaðan undir ‘B’-inu rembist ég við að losa takkann. Alltíeinu KLIKK og takkinn með slummuna í fararbroddi skýst beint í grímuna á mér rétt fyrir neðan hægra auga. Munaði litlu að ég hefði hlotið varanlegan augnskaða en í staðinn var ég bara með kámuga kinn.


Búinn að skoða álagningarseðilinn. Í fyrsta skiptið er ég að fá verulegan glaðning frá skattinum. Kjallinn fasteignaeigandi.

Stökk upp úr stólnum og hoppaði jafnfætis meðan ég klappaði saman höndunum líkt og ódýr hóra í undarlegu höfrungakynlífi þegar ég sá innistæðuna.

2 thoughts on “Titill

 1. Anonymous

  Hressandi lesning að vanda!

  Skv. minni reynslu er samt ekkert til sem heitir þurr hnerri…

  f.willy

  Reply
 2. Tryggvi

  en…hefurðu verið að rúnta með rosa gellu, hnerrað, fundið slummuna og sett rúðupissið og rúðuþurrkurnar á til þess að dreifa athygli gellunar á meðan þú vandar þig við að hella kóki yfir slummuna þannig að þú hafir ástæðu til að þurrka upp? Talandi um örvæntingu.

  Tryggvi

  Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *