Ert þú í stuði

Hvað hef ég svo að gera með íþróttaskó. Það fylgdi ekkert sögunni í gær.

Er nýbúinn að kaupa mér eróbikk myndbandið með Carmen Electra og ætla aldeilis að taka á því heima í stofu.

Nei, ekki þannig perrinn þinn.

Til hvers þyrfti ég íþróttaskó til þess?

Að öllu gamni slepptu þá fór ég í skvass. Þar var gamaninu hins vegar sleppt lausu. Snilldaríþrótt og er stefnt að því að gera þetta að reglulegri athöfn, sem miðað við fyrri leikfimistímabil mín þýðir svona 2 til 3 skipti í viðbót.

Sömdum reyndar nokkurn vegin okkar eigin reglur (vissum að mestu til út á hvað leikurinn gengur) þar sem stúlkukindin í afgreiðslunni var ekkert alveg að toppa tilveruna. Tíminn kostaði 1100 með leigu á spaða, borga með 500 kjell og restin á debetkort – hvað fer þá mikið á kortið spyr hún okkur!


Lenti í því í gær þegar ég var að keyra inn götuna mína að þar stóð sérdeilis stór maður á miðri götu í kraftgalla. Ég glotti með mér enda hef ég gaman af svona kengrugluðu liði.

Lagði bilnum í götunni og var að taka saman dótið sem ég hafði keypt í matarbúðinni þegar ég tek eftir því útundan mér hvar maðurinn kemur askvaðandi að bílnum og staðnæmist óþægilega nærri bílstjórahurðinni minni.

Hann er með hettuna uppi og þykk móðug gleraugu.

Frábært hugsa ég, hvað er nú í gangi.

“Eddu frá Stíbbflulosun?” spyr hann.

“Er ég frá hverju?”

“Stíflulosun!!”

Já, hvað kom upp um mig. Gallabuxurnar eða Levi’s jakkinn minn? Bíddu bara aðeins meðan og sæki stíflulosunargræjurnar í skottið á Passatinum og gíra mig upp.

Hann bað mig um að færa mig því hann væri að bíða eftir bíl frá Stíflulosun. Ég færði mig en aldrei kom neinni iðnaðarbíll þarna og aldrei hef ég séð þennan mann áður, hvorki fyrr né síðar.


Stundum þyki ég vera stuðmaður. Það er búið að hringja í mig tvisvar sinnum í dag þar sem manneskjan á hinum endanum á línunni er í örvæntingafullri leit að Valgeiri Guðjónssyni – Stuðmanni með meiru.

Lenti í því að þurfa nokkurn vegin þræta fyrir að ég væri alls ekkert Valgeir. Ef það verður hringt aftur tek ég að mér gigg sem Valgeir – mæti uppástrílaður með Casio skemmtara og tek nokkra slagara fyrir einhver svefnvana grunnskólabörn.

Tíminn úti. Vinna! Síðar.

4 thoughts on “Ert þú í stuði

  1. Anonymous

    Hentu einni pakkningu af Otrevin eða Nezeril í guttann ef hann fer að pirra þig aftur, heyrist á því hvernig þú skrifar það sem hann sagði að stifaln gæti verið í nefinu á honum. (ef það er hægt að ‘heyrast’ eitthvað á skrifum).

    -sigrey

    Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *