Mótvindur

Í annað skiptið í röð sem ég á flug frá Stokkhólmi til Keflavíkur kemur eitthvað stórkostlegt uppá, en eins og alþjóð veit þá var víst eitthvað aftakaveður á klakanum í gær.

Sem betur fer höfðum við vit á því að athuga með flugið áður en við lögðum af stað á Arlanda flugvöll í gær og því var gærdeginum eytt í að ýta á F5 á textavarp.is og arlanda.se, undir sæng og leiðinlegu sjónvarpsefni.

Þegar við loksins drulluðumst af stað á flugvöllin um 20 leytið í gærkveldi var þar fyrir fólk sem hafði beðið frá því 11 um morgunin og bar þess augljósleg merki.

Á skjánum við gate-ið stóð hátíðlega að næsta tilkynning væri klukkan 20:30.

Klukkan 20:30 hvarf síðan textinn af skjánum og birtist á nýtt ásamt nýjum texta sem hóf að rúlla rólega yfir skjáinn. Mannfögnuðurinn fylgdist með af ákafa líkt og telja væri niður til áramóta.

Á skjánum rúllaði eftirfarandi text:

Please

show

your

ID.

Þetta eru greinilega næg skilaboð og þeir strandaglópar sem ekki skilja svona standardskilaboð eiga bara að taka Norrænu. En fljótlega komu tveir starfsmenn á hlaupahjólum og sögðu að þau höfðu séð á netinu að vélin væri mjög líklega að fara af leggja af stað frá Glasgow. Óþarfi að spara í einhver bein samskipti, heldur skoða starfsmenn Arlanda bara heimasíðuna hjá Glasgow flugvelli.

Eftir misvísandi tilkynningar og nokkra nýja brottfaratíma var orðið ljóst að flugið færi í fyrsta lagi klukkan 01:10.

Meðan ég sat og las góða bók varð ég óþægilega var við ákveðinn ósið hjá gaurnum í dökkkúkabrúnu flauelsbuxunum og ljóshlandgulu peysunni sem sat ská á móti mér og var að lesa leiðarvísinn fyrir nýju myndavélina sína.
Reglulega notaði hann neglurnar á sér til að hreinsa á milli tannanna. Vel og vandlega. Eftir smástund bar hann svo fingurinn upp að nefinu til að efnagreina þær matarleifar sem fluttust milli tannanna og undir neglurnar hjá honum.

Ég var að því kominn að selja upp samlokunni sem ég keypti fyrir kúponginn sem ég fékk í sárarbætur fyrir að þurfa að bíða á flugvellinum þegar hann tók upp á því að nota tunguna til að hreina undan nöglunum. Þar með er komin ein ógeðishringrás. Djöfulsins frík.

Við flugum svo heim á mettíma. Met hægum tíma þ.e.a.s., flugið tók 3 tíma og 50 mínútur í staðinn fyrir tæpa þrjá tíma venjulega. Ég vaknaði annaðslagið við hristinginn í vélinni en ákvað að bezt væri að eyða tímanum sofandi. Síðan var ég eiturferskur í 10-11 í Lágmúlanum um 06 leytið að kaupa drykkjarskyr og spjalla við starfsólkið um hagnýta uppröðun á sælgæti í rauða rekka.

Gott flug.

2 thoughts on “Mótvindur

  1. f.willy

    Ekki vera svona harður við þig. Þetta er gríðarlega fallegur prósi, þó reyndar er það þekkt staðreynd að langvarandi veðurteppa getur haft neikvæð áhrif á getu fólks til að fúngera sem skyldi í daglega lífinu.

    Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *