Föndurgen

Ég hvarf fljótlega frá þeirri hugmynd að binda jólaborða utan um djásnin mín fyrir julefrokostinn. Ástæðan er bæði félagsleg og persónuleg.

Í staðinn fór ég í föndurvöruverslun á Skólavörðustígnum og keypti poka of plastaugum, gerviskegg, rauðan tausmokk og lím.

Lím dauðans.

Ég kom heim til mín rúmlega 17:00 síðastliðin föstudag og hafði því minna en klukkutíma til að föndra, baða mig, pússa skóna og strauja skyrtuna. Skellti CD í græjurnar sem ekki inniheldur jólalög og ætlaði að hefja föndrið. Takmarkið var að líma augu og skegg á jólaöldós og klæða í rauða tausmokkinn.

Einfaltog praktískt því ég reiknaði ekki með að taka jólaborðskrautið með mér heim aftur.

Þegar ég var búinn að raða helstu tólum og efnum í kringum mig eins og sannir atvinnuföndrarar gera þá var kominn tími á að byrja að líma.

Límtúban var agnarsmá og innihélt einungis nokkra ml af lími enda ætti það að vera fyllilega nóg fyrir viðfangsefnið mitt.

Ég kreisti límtúbuna en ekkert gerist. Hugsa mig um. Ah, það er væntanlega innsigli sem ég þarf að rjúfa til að geta límt eins og ofvirkur krakki á leikskóla.

Er ég sting á álhaftið átta ég mig ekki á þeim þrýstingi sem ég hafði valdið með því að kreista túbuna og á innan við sekúndubroti spýtist ALLT límið úr túbunni og yfir hendurnar á mér.

Hraðþornandi tonnatak.

Fokk.

Ég byrja að reyna þurrka af mér límið og síðan skella höndunum undir rennandi kranann og finn hvernig límið þornar á puttunum á mér. Því næst hleyp ég um alla íbúð baðandi út öngum og öskrandi eins og fermingarstelpa á túr skíthræddur um að enda eins og fiskur.

Í panik finn ég leggjar af terpentínu sem ég byrja að hella í tusku og nudda puttana á mér, sem nú eru komnir með hvítan illrjúfanlegan tonnataksskjöld.

Eftir að hafa notað vel flest heimilistæki til að reyna ná þessu af puttunum á mér og ég orðinn allt of seinn í frokostinn geri ég aðra tilraun til að föndra jólaborðskreytinguna. Ég þarf að beita öllu mínu afli til að kreista út nokkra límdropa sem duga til að halda augunum og skegginu í gegnum borðhaldið – en þetta hefst að lokum og útkoman bara nokkuð góð.

Hafði mig að öðru leyti til á 5 mínútum og mætti of seint með myndarlegt jólaborðskraut og góða sögu í farteskinu. Mikið sem foreldrar mínir sem reka eina helstu og flottustu föndurvöruverslun á Norðurlandi eru stoltir af mér – mig skortir greinilega föndurgen en ekki viljann til að föndra.

3 thoughts on “Föndurgen

 1. f.willy

  Góð saga verður aldrei ofmetin. Þú hefðir reyndar getað látið nægja að deila út nafnspjaldinu þínu meðal vinnufélaga og bent þeim á að lesa þetta á robbik.net, það er svo hrikalega leit næntís að aktúallí segja sögur. Nú á dögum kemurðu sögunni á veraldarvefinn með einu handtaki og þú tryggir það að allir sem þú þekkir munu lesa hana og þú þarf aldrei að hafa þær eftir í eigin persónu. Gríðarlega effektívt.

  Reply
 2. Drengur

  Ég varð þeirrar lukku aðnjótandi eitt sinn þegar ég var að leika mér með tonnatakstúbu að efnið lak í kjöltuna á mér. Gallabuxurnar festust við lærið á mér og um tíma leit út fyrir að lærin á mér myndu festast saman og loka á tilgang lífsins. Auðvitað kom ég í veg fyrir það með því að lifta gallabuxunum upp í púng og festi þá fingurna í gallabuxunum. Mikið ævintýri fylgdi í kjölfarið en eftir að hafa séð hvað lím gerir við miðbik líkamans þá læt ég það eiga sig að sniffa það upp í heila, þó ég gæti fyrir vikið samið Ratsjárstöðvarblús fyrir vikið.

  Reply
 3. Elsku Besta Mamm Þín

  það er auðheyrt drengur minn að það þarf að taka þig í ærlegan fönduríma þegar þú kemur í jólafrí ég skal vera búin að hafa til fyrir þig eitthvað auðvelt úr rauðu prjónastroffi þetta heitir ekki rauður tausmokkur hefur þú ekki unnið í aðal föndurbúð á Norðurlandi drengur minn !!!!!!!!!!!!!!!!!ki

  Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *