Jólin búin og Sveinki dauður

Þá eru tuttugustuogáttundu jólin mín yfirstaðin. Að venju var haldið í góða siði [ég geri mér grein fyrir hvað er asnalegt að segja “að venju” og “halda í góða siði” í sömu setningu því venjur og siðir er alls ekkert svo ólíkt og mætti halda að það væri nóg að nefna annaðhvort en ég ætla að láta þetta bæði standa þó svo að ég sé búinn að drepa þessa bloggfærslu í fæðingu með að útskýra eitthvað sem skiptir alls engu máli] og má segja að breytingar á jólum komi helst fram í þeim gjöfum sem ég fæ.

Ég ætla hvorki að fara tíunda þá siði sem við höldum í eða hvað ég fékk í jólagjöf. Enda kemur það ykkur ekkert við. Jólin voru í stuttu máli unaðsleg þó svo að jólasveinninn hafi dáið 22. desember síðastliðin. Veit ekki hvort foreldrar þeirra barna sem voru í þessu jólaboði hafi átt eins skemmtileg jól.

Einnig get ég lýst því yfir, með stolt í hjarta, að ég get ekki kallað mig hluta af Dominos kynslóðinni því ég fékk ekki SMS frá þeim á aðfangadagskvöld. Enda væri það undarlegt þar sem ég hef einu sinni pantað hjá þeim pizzu á árinu sem nú er senn á enda. Og ef ég hefði fengið SMS frá þeim væri það kjörið tækifæri til að ákveða að panta aldrei pizzu hjá þeim aftur. Dominos er prump.

Ég get ekki sagt ykkur hversu oft ég hef verið að dunda mér við eitthvað heimilislegt, eins og að hella upp á nokkra bolla af kaffi eða stoppa í sokka, þegar ég hef brostið út í söng og gólað “DA DA DA” hástöfum eins og Christina Aguilera í Pepsi auglýsingunni.

Jú. Reyndar get ég sagt ykkur það. Einu sinni.

Núna áðan. Þegar ég fór út með ruslið og sótti purusteikina sem ég ætla að elda í kvöld út í skúr. Þ.e.a.s. purusteikin var í kæli út í skúr, ég ætla ekki að elda hana þar í kvöld.

Nóg komið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *