Vinnumannaherbergi

Lífið heldur áfram sinn vanagang hér í Osló, eða Ozzlo eins og ég kýs að kalla borgina. Þykir það bara meira kúl. Legg ofur áherslur á zeturnar.

Þessa vikuna er ég ekki á hóteli með öllum þeim þægindum sem þeim fylgja gjarnan. Eitthvað svo unaðslegt við að fara út á morgnana með handklæði út um öll gólf, koddann uppi á skrifborði, óhrein nærföt og sokkar á víð og dreif og sjónvarpið ofan á klósettinu – koma síðan tilbaka um kvöldið og það er búið að hreinsa allt til. Allt hreint.

Nú er ég í íbúðinni “okkar” sem er fín í alla staði nema engin morgunmatur fylgir og ég neyddist til að setja í þvottavél sjálfur. Í íbúðinni eru 2 stór herbergi og eitt sýnishorn að herbergi. Ég tók að mér litla barnaherbergið enda Þjóðverjinn búinn að taka annað stóra herbergið eignarnámi og hitt gaf ég eftir handa heldri manni.

Eins og vinnufélagi minn orðaði það minnir þetta pínu á þegar ég var sendur í sveit sem strákur og fékk litla herbergið. Í herberginu er lítið rúm, lítið náttborð og risastórt fótboltaplakat frá 1990. En það fer óneitanlega ágætlega um mig þarna enda nægjusamur einstaklingur með meiru.

Og já, ég er barnsfaðir Önnu N. Smith.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *