Sumarið 2007 – sumarið sem aldrei kom bara næstum því

Ég labbaði upp á Esju í vikunni.

Engar orðalengingar með það því fullyrðingin sjálf er nægilega torskilin.

Ætlaði alltaf að blogga um flugið fyrir nokkrum vikum með SAS, sem hefur ákveðið að halda áfram að sýna öryggisatriðin um borð með leikrænum tilburðum áhafnarinnar í staðin fyrir að sýna teiknimynd.

Hvort heldur sem er þá fylgist engin farþegi með þessu lengur. Það eru allir að lesa, hlusta á tónlist eða sofandi. Allt annað en að fylgjast með öryggisatriðunum um borð.

Nú, fyrir utan að sýna hvernig á að blása upp björgunarvesti og benda þokkafullt á næstu útganga vélarinnar sýnir flugfreyjan hvernig á að spenna beltið.

Í þessu flugi var flugfreyjan miðaldra karlmaður með snert af skalla og sambærilega ístru. Ég ætla samt að halda áfram að tala um flugfreyju af sömu ástæðu og það eru til kvenkyns framkvæmdarstjórar.

Flest okkar sem koma sér í gegnum allt það vesen sem fylgir á undan því að vera virkilega sestur inn í flugvél eru nokkuð vel að okkur í þeirri list að festa belti. Ég ætla leyfa mér að fullyrða að yfir 99% þeirra sem setjast í flugvél í fyrsta skiptið hafi setið í bíl á einhverjum tímapunkti yfir ævina.

Í von um að veita þessu hluta flugfreyjustarfsins aðeins meira gildi fylgdist ég með af ákafa. “Bíddu, bíddu. Ertu að segja mér að ég eigi að taka þennan flata mjóa silfurenda og stinga í þetta silfur-járn-box-dæmi hér hinum megin. Síðan að loka silfur-járn-boxinu og herða að. Getur þú sýnt þetta aftur. Ég er ekki viss um að ég hafi fyllilega náð hugtakinu að festa belti.”

Veit ekki hvað ég er að kvarta. Það var ágætis tilbreyting að sjá huggulegan sextugan karlmann sýna þetta í staðin fyrir líflausu teiknimynd IcelandAir.

Einhversstaðar í kringum Ingólfshöfða var mér mál. Mál að pissa. Þurfti ekkert að púlla tvistinn enda hef ég aldrei gert slíkt í flugi því ég hef sjúklegar áhyggjur af því að þrýstingurinn muni fokka því upp á mjög svo ósnyrtilegan máta.

Salernið í þessari Boeing 737-800 vél er lítið minna en heima hjá mér. Þar er klósett með viðarsetu og venjulegur klósettpappír. Einnig er þessi fína gluggaröð á klósettinu sem býður upp á óborganlegt útsýni fyrir hvern þann sem af einhverri ástæðu situr á klósettinu.

Aldrei hef ég óskað mér þess jafn heitt að þurfa að kúka í 30.000 fetum.

One thought on “Sumarið 2007 – sumarið sem aldrei kom bara næstum því

  1. SigRey

    Er þessi ósk hærra á listanum en að komast í Mile High klúbbinn? Eða ertu måske þegar kominn í hann?!

    Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *