Bær Hundanna

Loksins kominn í tölvu sem er ekki með Windows á kínversku og því ekki lengi að snara lyklaborðinu yfir á íslenskt. Er í smábæ í norður Filipseyjum sem heitir Segada.

Íbúafjöldi hér telur litlar 1400 sálir. Þetta er lítill og sætur bær sem hefur verið vinsæll hjá bakpokaferðalöngum í mörg ár.

Rútuferðin sem ég minntist á í síðustu færslu, frá Manila til Bacau, sem tók alla nóttina reyndist ekki vera eins hræðileg og ég ímyndaði mér. Ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að öll sætin voru kyrfilega plöstuð og ég rumskaði annað slagið þar sem rútan var full af ókunnugu fólki – þá var þetta ágætt. Það gerir samt engum gott að sitja í plöstruðu sæti í 9 tíma og þrátt fyrir að loftkælingin hafi verið á fullu alla ferðina og skítkalt í rútunni þá sýður maður sjálfan sig smám saman í þessum sætum.

Hrísgrjónaakrarnir voru vissulega viðurstyggilega flottir og landslagið eins og draumur. Þeir eru rúmlega 2000 ára gamlir sem gefur þessu einnig skemmtilegt vibe.

Annars höfum við bara verið á tjillinu hér í Sagada. Tókum rölt í dag í Echo Valley að skoða Hanging Coffins. Í mjög stuttu máli eru þeir sem efnaðastir eru settir í kistu og hengdir utan í klettavegg. Þar hanga nú kisturnar öllum til sýnis. Þeir sem minna hafa milli handanna eru yfirleitt settir í kistu og inn í helli. Einnig er kirkjugarður hér þar sem allar grafirnar eru ofanjarðar. Þegar við áttum leið um hann í dag voru starfsmenn kirkjugarðsins í góðum fíling að grilla sér kjöt á spjóti í miðjum garðinum. Eins kurteisir og Filipeyingar eru buðu þeir okkur að sjálsögðu kjetbita – en við afþökkuðum pent.

Á morgun tökum við svo rútuna aftur til Manilla og verðum þar seint annað kvöld, eigum síðan flug niður til Palawan eldsnemma á laugardagsmorgun og munum því líklegast eyða nóttinni á flugvellinum. Sem er ekkert nema tóm hamingja.

Engar myndir þar sem internetsambandið hér er frekar slappt. Einnig verð ég að hætta þessu þar sem útgöngubann ríkir eftir klukkan 21 í þessum bæ.

Án spaugs. Þá hringir bjalla hér í bæ klukkan 21 og þá eiga allir að drattalappast heim til sín. Held við verðum ekki skotnir í miltað af færi ef við fylgjum þessu ekki en ég ætla ekkert að komast að því. Eftir klukkan 21 ráða þeir tugir hunda sem ráfa hér villtir um ríkjum. Í fyrramálið eigum við von á að vakna við fyrsta hanagal – bókstaflega. Þeir halda ekki kjafti þessir hanar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *