Expedition Eat Rice

Þrátt fyrir að hafa staðið á ströndinni og blikkað ákaft út í niðdimma nóttina var okkur ekki rænt. Enda hafa mannrán á Filipseyjum minnkað stórlega undanfarin ár, en ekki búið að finna alla mannræningjana miðað við plakatið yfir mest eftirlýstu mannræningjum Filipseyja sem hékk á lögreglustöðinni í El Nido.

Þriggja daga svaðilförin stóð í raun alveg undir væntingum. Það var lítið áætlað þegar er lagt af stað nema vera í Coron Town eftir þrjá daga. Lögðum af stað frá El Nido síðastliðin miðvikudag út í óvissuna.

Er frekar erfitt að reyna lýsa þessari ferð í örfáum orðum, er frekar efni í mjög langa pistil. Myndirnar tala væntanlega sínu máli þegar við höfum tækifæri til að henda þeim á alnetið eftir að við komum heim.

Í stuttu máli var þetta s.k. Island Hopping. Við lifðum á fiski og hrísgrjónum sem annaðhvort var veitt af áhöfn bátsins eða keypt í næsta þorpi. Við gistum á hvítri strönd aðra nóttina og á bátnum hina. Báðir erum við samt búnir að snorkla nóg fyrir allt árið og þótt það hljómi ótrúlega þá hætta fjarlægar hvítar strendur smekkfullar af pálmatrjám, svona týpískar póstkortastrendur, að hafa áhrif á mann. Þetta fellur allt saman í eitt.

Er samt alveg merkilegt hvar okkur bar niður, allstaðar var einhver kofi eða kofar, og annaðhvort yfirgefnir eða búið í þeim. Einnig held ég að það sé hægt að finna að minnsta kosti einn hund á hverri einustu af þeim þúsundum eyja sem eru hér. Manni stendur ekki alveg á sama þegar maður prílar úr sjónum á pínulitla yfirgefna eyju, með húsi sem líkist helst einhverju sem var notað undir tilraunir á manneskjum, þegar óður hundur kemur geltandi og slefandi á móti manni. Guð má vita hversu lengi þessi hundur hefur verið þarna einn og yfirgefinn.

Nú erum við staddir í Coron Town á Busuanga eyju. Gærdagurinn fór í að leigja okkur bát til að fara með okkur um helstu staði sem hluti Filipseyja býður upp á. Fyrir utan Island hopping og snorkla (sem ég er komin með ógeð af beisikallí) þá fórum við í Hot Springs.

Hot Springs hljómar kúl og töff á stöðum eins og Íslandi þar sem hitastigið er kannski 10°, en þegar hitinn er 30° er frekar absúrd að vera staulast ofan í einhvern 40° heitan hver. Okkur Gunnari fannst það nú lítið mál að dýfa okkur ofan í þetta en Bretarnir sem voru með okkur fannst þetta ekki alveg eins sjálfsagt mál.

Í dag er síðasti dagurinn okkar á Filipseyjum þar sem við fljúgum til Manila í fyrramálið og áleiðis til Hong Kong seinnipartinn á morgun. Víð áætlum svo að lenda seinnipartinn á fimmtudaginn á Íslandi. Ég hygg að fyrsta verk okkar heima á klakanum verði að taka langa, hreina og heita sturtur þar sem sú athöfn að baða sig upp úr fötu af köldu vatni missir allan ljóma eftir þrettán skipti. Við erum reyndar hættir að gaspa eins og við eigum lífið að leysa eftir fyrstu gusuna!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *