Palawan

Frá Sagada lá leið okkar suður eftir Filipseyjum til eyjunnar Palawan. Við lögðum af stað brattir í brún klukkan 10:00 síðastliðin föstudag með jeepney frá Sagada til Bontoc sem tók rúmlega klukkustund. Jeppney er sér Filipeyskt fyribrigði af farartæki sem er samblanda af jeppa og smárútu. Þetta eru yfirleitt samasoðnar járnhrúgur sem með undraverðum hætti komast hvert sem er og taka allt frá 8 upp í 40 manns (eftir því hvort þetta eru vesturlandabúar eða asíubúar).

Frá Bontoc lögðum við svo af stað með rútu klukkan 15:00 sem átti að skila okkur til Manila á miðnætti. Skemmst er frá því að segja að rútan bilaði nokkrum sinnum á leiðinni, það voru pissustopp og einu sinni virtust þeir stoppa til þess eins að þrífa rútuna – um miðja nótt. Rúmlega 05:30 morguninn eftir stóðum við á einhverju guðsvoluðu bílastæði í Manila og áttum flug klukkan 08:15 til Puerto Princesa. Náðum að hóla í enn einn útúrstressaðan leigubílstjórann sem ók okkur út á flugvöll. Það tók einnig sinn tíma vegna umferðarteppu og eins mjög alvarlegs bílslys sem við keyrðum framhjá.

Við náðum á flugvöllinn í tæka tíð þrátt fyrir að þurfa sýna ýmis skilríki og kvittanir margsinnis og fá stimpla hægri vinstri á allt sem hægt er að stimpla.

Það kom okkur því ekkert sérlega á óvart þegar var tilkynnt um seinkun á flugi til Puerto Princesa. Biðum því salirólegir og helslakir eftir sérlega afslappandi rútu- og leigubílaferð. Ekki vakti það mikla trausttilfinningu hjá okkur þegar rafmagnið var að fara af flugvellinum í tíma og ótíma. Fórum ekki í loftið fyrr en 11:30.

Ef þið eruð mikið fyrir samkvæmisleiki þá mæli ég með að fljúga með Cebu Pacific. Þetta nýstárlega flugfélag hefur tekið upp á þeirri nýjung að angra farþega sína með léttum samkvæmisleikjum á miðri leið. Þetta fer þannig fram að lausgirtar flugfreyjur gefa vísbendingar um mismunandi hluti sem farþegar eru með á sér og sá sem er fyrstur að rétta hlutinn upp vinnur einhvern stórkostlegan minjagrip merktan Cebu Pacific. Ég tók leikinn kannski helst til alvarlega og var búinn að klæða mig í björgunarvestið og blása það upp þegar ég fattaði að það átti að sýna vegabréfið.

Lentum í Puerto Princesa um 12:30 og stukkum upp í næsta jeepney áleiðis til Sabang. Sú ferð átti að leggja af stað klukkan 14:00 og taka þrjá tíma en við vorum að koma í Sabang um 18:30. Jeepneyjar eru álíka áreiðanlegir og krakkhóra á amfetamíni í bingói.

Ferðin frá Sagada til Sabang tók semsagt rúmar 32 klukkustundir. Loftlínan milli þessara tveggja staða er cirka 600 kílómetrar.

Í Sabang gistum við svo í sitthvorum einka strákofanum inn í skógi, í göngufjarlægð frá “ströndinni”. Gerðum mest lítið þar nema að fara í Underground River í Puerto Prinseca Subturranean River National Park. Þetta er lengsti neðanjarðarhellir í heimi sem hægt er að fara um á báti. Við fórum rúma 1.5 km inn í hellinn en lengst er hægt að fara rúma 8 km. Eins og lýst er vel í Lonely Planet bókinni er þetta eins og ferð Jules Verne inn í miðju jarðar.

Orðnir langþreyttir á jeepneys, flugvélum og rútum ákváðum við að taka bátinn í gær norður til El Nido þar sem við erum staddir nú. Sú ferð tók reyndar 8 klukkustundur en var mun ánægjulegri og þægilegri en margar ferðir hingað til, þrátt fyrir að hafa lent í hitabeltisskúr á leiðinni (og þetta er að sjálsögðu opinn bátur með mótórhljóð líkt og í meðalstórri Boing þotu).

Í dag höfum við tekið tjillfaktorinn á þetta og skipulagt restina af ferðinni, náðum meira að segja að taka tan gönguferð á ströndinni í dag. Vorum meir að segja góðir við sjálfa okkur og gistum á hóteli hér, hóteli sem er byggt með steypu. Hér var öllu til lofað, lofkæling, satellite TV, heitri sturtu og 24 tíma rafmagni. Ekkert af þessu stenst fullkomlega. Rafmagnið er af skornum skammti og keyrir bara á ákveðnum tímum og sjónvarpið bara með gott signal ef það er heiðskýrt. Fyrir utan það að allir á hótelinu þurfa að horfa á sömu stöðina sem unlingsstelpan í lobbyinu velur af mikilli varfærni og eftir eigin geðþótta. Hitinn í sturtunni er ekkert annað en hlægilegur.

Á morgun leggjum við af stað í þriggja daga ævintýrasiglingu, eða Expedition Tour. Þetta er sko engin fjölskylduferð fyrir tvo feita foreldra með ennþá feitari börn. Hér siglum við um skerjagarðinn áleiðis til Coron og skoðum mjög svo fáfarnar eyjar og algjörlega út úr túrista leið – hækum, snorklum og tönum. Eins og staðan er nú verðum við 8 á bátnum plús áhöfn.

Verðum að hætta nú því við þurfum að hitta áhöfnina og taka smá bjór (nema Gunni sem fær sér Earl Gray te). Eigum að mæta niður á höfn eftir 30 mín og blikka nokkrum sinnum með vasaljósi. Þá kemur einhver bátur og sækir okkur. Svo er okkur sagt allavegana.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *