Róm

Eitt af því ógáfulegasta sem ég hef gert þessa síðustu og verstu daga, fyrir utan að losa um töluvert fjármagn til að svala ódauðlegri þörf minni fyrir fleiri bita og þéttari myndeiningar í bókstaflega öllu, er að gefa konunni minni farsímann minn sem ég var þá hættur að nota.

Í barnslegu góðlæti mínu hélt ég að þetta væri guðdómlega fallegt af mér, en djöfullegt minni farsímans er sífellt að koma aftan að mér. Konunni minni finnst ekkert spennandi að fá sífellt áminningar um reglubundnar svallveislur, fundi áhugamanna um kynleg málefni og afmælisdaga fyrrverandi ból- og/eða drykkjufélaga. Allt hlutar af minni mjög svo vafasömu fortíð.

En talandi um Guð og djöfulinn, þá er skemmst frá því að segja að ég skrapp til Róm yfir páskana. Á meðan Íslendingar hámuðu í sig sveittum páskaeggjum með stírur í augum og hlandklepruðum náttfötum stóð ég á Péturstorgi í svívirðilegri rigningu og óhóflegum þrumum og hlustaði á orð páfans.

Ef einhver hefur ítök í veðrinu og smá ráðrúm til samningaviðræðna um sólskin á ákveðnum tímapunkti í gegn nokkur hundruð maríubænum, þá ætti það að vera páfinn.

Róm er yndisleg borg, með allri sinni geðbiluðu umferð, þröngum strætum, óteljandi kirkjum, flatbökum og hveitideigi. Hvert sem þú snýrð þér er eitthvað stórmerkilegt að sjá. Rör sem stendur út úr byggingu og lítur út fyrir að vera hvert annað drasl er í raun 2000 ára gamalt skólp. Og enginn, öll þessu ár, hefur fundið tilhneigingu hjá sér til að henda þessu.

Fjárhagslega séð var þetta versti tími síðan almennar flugsamgöngur hófust til að fara í svona ferðalag. Evran fór í sögulegt hámark akkúrat á þeim tímapunkti sem við vorum á Ítalíu og ég mun aldrei gleyma því hvenær ég fór því línurit evrunnar hefur stimplað þetta inn í eilífðina.

Nánari upplýsingar um helstu minjar og ljósmyndir fylgja í næstu bloggfærslu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *