Flutningsbloggsflutnings

Ég flyt ekki á hverjum degi. Það ætti sjálfsagt að segja sig sjálft. Þar sem ég set ekki allar mínar eigur ofan í pappakassa daglega og flyt þá til, er ég ekkert rosalega vel að mér í hvernig allur flutningsferilinn er uppbyggður.

Þetta væri annað mál ef ég byggi í pappakassa á Hlemmi og væri nettengdur 24/7 með einhverju sem kallast pungur.

Eftir að hafa eytt nokkrum andvaka nóttum í að hugsa um hvernig á að pakka ofan í kassa og nokkrum svefndofa dögum í að pakka ofan í kassa áttuðum við okkur á því að við höldum ekki á kössunum til Akureyrar.

Það var því tíma til að hafa uppi á einhverjum sem á rosalega stóran bíl. Ég bjóst ekki við miklum hindrunum í þeirri deild því ég hef aldrei séð bílstjóra án bluetooth handfrjáls búnaðar.

En vitiði hvað, þetta bluetooth dúll þeirra er bara innihaldslaust plaststykki því engin þeirra virðist í raun eiga farsíma. Allavegana svara þeir ekki í hann. Ef þeir svara eru þeir yfirleitt búnir að staðsetja sjálfan sig undir húddinu á bílnum þannig að samtalið er líkast því að reyna tala við snjóinn sem stundum kom fram í gömlum sjónvörpum við slæm skilyrði.

Það var því eina leiðin að tala við eitthvað af stóru fyrirtækjunum í bransanum sem bjóða upp á landlínu. Að flytja búslóð út á land var nú lítið mál að þeirra mati.

Eina sem við þurftum að gera var að einhenda draslinu okkur á bíl sem myndi koma heim að dyrum. En eftir að hafa raðað búslóðinni okkar tetris-style inn í sendiferðabíl með röskasta bílstjóra í heimi þá þurftum við að fylgja honum eftir og setja búslóðina SJÁLF á bretti og plasta – fyrir framan nokkra bólugrafna sumarstarfsmenn með króníska standpínu og snert af lömunarveiki.

Væri ekki einfaldara fyrir alla aðila ef sendiferðabíllinn kæmi heim til manns með ögn af brettum og rúllu af plasti. Við gætum þá raðað búslóðinni á bretti og plastað á staðnum – rúllað inn í sendiferðabílinn og kallað-það-daginn. Allir glaðir.

Og til að svara spurningunni sem ég svara að meðaltali fjórum sinnum á dag – ég er ekki búinn að selja. Íbúðin mín er nú sneiðmynd af alvöru piparsveinaíbúð, með rúm, 2 stóla, tölvu og flatskjá með tilheyrandi leikjatölvu og heimabíó…hvað þarf meira?

4 thoughts on “Flutningsbloggsflutnings

 1. Hadda

  Þú selur fyrir mánaðarmót – finn það á mér;)
  Ertu samt fluttur -maður er alveg ekki með á nótunum!

  Reply
 2. robbik

  Skil vel að þú sért ekki alveg með á nótunum þar sem við vitum vart sjálf hvar við búum 😉

  En nei, ég er ekki fluttur heldur er megnið af búslóðinni minni flutt út.

  Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *