Tilgangur vörunúmera

Með íbúðinni fylgdu nokkur útiljós sem eyddu tilverunni sinni í kassa inn í bílskúr. Ég var ekki lengi að koma þeim fyrir á gáfulegri stað sem gefur þeim tækifæri að ljóma og finna tilgang með tilvist sinni.

Reyndar gat ég bara sett upp tvö af þrem útiljósum því eitt hafði á einhvern dularfullan hátt tapað kúpli sínum. Hvar þessi kúpull er niðursettur núna get ég ekki ímyndað mér, en mögulega hefur honum verið stolið sem varahluti í LHC.

Ég setti upp spæjaragleraugun og strauk umbúðakassanum utan um útiljósið með vísifingri hægri handar áður en ég reisti höndina til lofts og pírði augun á örfínt hvítt duft á fingurgómunum. Síðan færði ég ímynduðu spæjaragleraugun framar á nefið og sagði “Þetta ljós hefur ekki farið sína síðustu ferð í Byko”  og spilaði svo lagið úr CSI á lúftgítar.

Ég fór í Byko og gaf þeim upp vörunúmerið. Að sjálfsögðu gat bólugrafni unglingurinn pikkað inn í tölvuna og séð að það væru bara þrjú ljós eftir í heiminum. Síðan tjáði hann mér að það væri stjörnumerkt í tölvunni.

Eins og mér sé ekki skítsama hvort þetta vörunúmer sé stjörnumerkt eða hafi broskall í lagerkerfinu. En stjarna þýðir víst að þetta verði aldrei pantað inn aftur.

Frábært, mig vantar bara kúpul þar sem fyrrverandi kúpullinn þjónar nú lykilhlutverki í stærstu vísindatilraun mannkynssögunnar.

En hann lofaði að panta annað ljós fyrir mig.

Viku seinna fór ég aftur í Byko því ég vissi að slá svona pöntun inn í lagerkerfi í fyrirtæki líkt og Byko skilar nákvæmlega engum árángri.  Kom mér ekkert sérstaklega á óvart að engin kannaðist við að bólugrafinn unglingur ynni í ljósadeildinni og engin útistandandi pöntun væri á þessu útiljósi og starfsmaður ljósadeildar væri í mat.

Til að gera langa sögu stutta þurfti fleiri en 2 ferðir í viðbót og eitt árángurslaust símtal til að ná loksins af aðalstarfsmanni ljósadeildar, en einungis eftir að hafa hótað að redda þessu nú bara sjálfur þar sem þeir væru greinilega algjörlega ófærir um að panta ljós. Hann vissi ekkert um vandamál mín með skort á kúplum.

Síðar þann dag hringdi hann móður í mig og sagðist hafa fundið síðasta ljós í heimi í Keflavík og það væri bara verið að setja það á bíl í þessum töluðu orðum. Ég þakkaði honum vel unnin störf og tilkynnti að ég hlakkaði til að fá símtal frá honum fljótlega til að segja mér að ljósið mitt væri komið.

Hann hringdi aldrei.

Þannig að í gær fór ég í Byko í 69 skiptið síðan ég flutti til Akureyrar. Viti menn, ljósið var komið. En þetta var ekki rétt ljós. Ég horfði á hann líkt og örfhentur ellilífeyrisþegi horfir á nýmálaðan goth táning og spurði til hvers í ósköpunum þeir væru að hafa fyrir því að vera með vörunúmer. Vörunúmer er eins og kennitala vörunnar en samt geta þeir ekki pantað vörur sín á milli.

Til allrar lukku virðist kúpullinn af þessu ranga ljósi passa á ljósið mitt og ég hef löngu glatað tilganginum með þessari bloggfærslu.

3 thoughts on “Tilgangur vörunúmera

  1. SigRey

    Shite! ég er viss um að original kúpullinn átti sök á því að seglarnir ofhitnuðu í LHC þannig að heilt tonn af fljótrandi nitri flæddu stjórnlaust inn í hraðalinn sem varð síðan til þess að lítið svarthol myndaðist á Akureyri inni í klósakúpli sem verið var að skrúfa í þannig að hann sprakk.

    Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *