Buxnalaus neðanjarðarlestarferð

Er ég var að vinna mikilvæga rannsóknarvinnu fyrir núverandi verkefni mitt rakst ég á síðu sem vakti athygli mína.  Buxnalausir föstudagar í vinnunni er hugmynd sem ekki er ný af nálinni. Ég er reyndar ennþá í buxum enda ekki komið hádegi.

Svo virðist sem hópur sem kallar sig Improv Everywhere taki upp á því að vera buxnalaus í neðanjarðarlestinni. Hljómar eins og ágætis hugmynd en hefur þó sína galla.

Þið skiljið, reglulegir buxnalausir vinnudagar myndu á endanum vera fullkomlega eðlilegir. Ég er líka mjög nálægt því að finna upp algjörlega nýja aðferð til að ganga í buxum.

Hugmyndin með þessari buxnalausu neðanjarðarlestarferð var að fólk átti ekkert að kannast við af hverju aðrir væru ekki í buxum og halda því fram að þau þekktu alls ekkert hina aðilana sem einkennilega voru buxnalausir líka.

Það myndi alls ekkert vekja undrun mína ef búnki af hip og kúl fólki væri allt í einu buxnalaust og af einskærri tilviljun skartaði sínum flottustu nærbuxum og sokkum akkúrat á þessum degi. Það væri alveg fullkomlega eðlilegt.

Ég er strax farinn að vinna í að fá þennan hóp hingað heim og plana buxnalausa strætóferð með Strætisvögnum Akureyrar. Það verður rosalegt.

One thought on “Buxnalaus neðanjarðarlestarferð

  1. f.willy

    Ég er til í buxnaleysi hvenær sem er. Spurning um að grafa upp gömlu súperman-boxerana mína, verst að ég þarf væntanlega að missa slatta af kílóum til að komast í þá.

    Reply

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *