Category Archives: Krapp

Daglegt krapp

Stóri bróðir okkar Síminn

Big Brother is still watching you
Creative Commons License photo credit: rogiro

Síminn hefur undanfarið auglýst s.k. netvörð til að tryggja að starfsmenn gleymi sér ekki á YouTube og Facebook og skili af sér álíka miklu dagsverki og starfsmaður á plani.

Einnig er hægt að fá svipað tól fyrir heimili.

Gott mál, en þetta hefur vissulega sína kosti og galla.

Fyrir heimili kemur þetta sjálfsagt mörgum að góðum notum sem hafa  ekki nægilega þekkingu til að setja upp svona síur, en þær eru oft innbyggðar beint í beina (routers) sem finnast á nánast öllum heimilum í dag.

Það slæma sem ég sé við þetta er hversu mikið af upplýsingum þetta veitir Símanum. Ef fyrirtæki setur þetta upp hefur Síminn yfirsýn yfir alla netnotkun fyrirtækisins og væntanlega ýtarlega logga um nethegðun starfsmanna. Hver segir hvað Síminn má skoða og hvað Síminn má ekki skoða? Getur óbreyttur starfsmaður Símans einfaldlega komist í gögn um netnotkun einhvers fyrirtækis út í bæ, eða nágranna síns? Slíkt myndi ég telja afar óæskilegt.

Reyndar sér netveitandinn þinn næstum allt sem þú gerir og gerir ekki á netinu, en með svona síu verður þetta allt eitthvað svo mun aðgengilegra og þægilegra fyrir hnýsna starfsmenn Símans til að stúdera nákvæmlega hvað fyrirtæki eru að gera á daginn – selja svo upplýsingarnar til viagra og plastdúkkuframleiðendur fyrir milljónir.

Var bara velta þessu fyrir mér!

Hashish

Það er kannski ekkert skrýtið að drykkja og reykingar meðal íslenskra unglinga sé með því minnsta sem gerist þegar það er hassverksmiðja á hverju strái.

mblhass

Reyndar fjallar greinin einnig um kannabis og önnur vímuefni sem er víst með minnsta móti hér á landi – sem er jákvætt. Bara fyndin uppsetning hjá mbl.is og ég er í stuði fyrir skjámyndir í dag.

Gá til veðurs

Að gefnu tilefni þarf ég að vita hvernig veðurspáin er seinnipart á morgun.

Á mbl.is má sjá eftirfarandi:

Veður á mbl.is

Veður á mbl.is

Á visir.is má svo finna eftirfarandi veðurspá fyrir morgundaginn:

visir.is veður

visir.is veður

Hér munar heilum 13° á Celsíus kvarðanum á veðrinu á Akureyri  – veit að visir.is segir klukkan 12 en mbl.is klukkan 19. Samt er textalýsing á báðum miðlum nákvæmlega eins.

Er þetta til fyrirmyndar? Af hverju sleppa þessir miðlar ekki bara veðrinu í staðinn fyrir að vera með eitthvað drasl?

Göt í götum

Það er voða fínt að búa á Akureyri. Við fáum okkur pylsu með öllu og skellum rauðkáli með og skolum svo öllu niður með kók-í-bauk og allt það.

En það er eitt sem fer óstjórnlega í taugarnar á mér hér í bæ.

Göturnar eru á svipuði kaliberi og mætti hugsa sér að finna á tunglinu, þær eru sumstaðar svo holóttar að það mætti halda að götubardagi hafi staðið yfir í allan vetur. Þá er ég ekki að tala um einhvern bardaga með túttubyssur milli ofvirkra grunnskólabarna heldur eitthvað meir í líkingu við daglegt líf í Bagdad.

Ég hef hinsvegar ekki séð marga skriðdreka hérna sem hlýtur að leiða líkum að því að malbikið sé algjört krapp. Kannski er þetta vegna þess að sumir framúrskarandi gatnagerðarmenn á sínum yngri árum sneru sér fljótt að öðru.

Þetta veldur því að annaðhvort keyra bæjarbúar á undir 30 km/klst (flestir gera það reyndar hér) til að finna sem minnst fyrir holunum, eða fólk keyrir eins og það sé með brennandi sígarettu í klofinu og tekur snarkrappar beyjur í sífellu til að forða dempurunum frá varanlegu tjóni – og virðir að vettugi hagsmuni annara vegfaranda.

Getum við ekki fyllt upp í þessar holur með áli? Eigum nóg af áli og það kostar ekki skít í bala í dag. Setja smá bling bling í göturnar og láta sumarstarfsmenn bóna það daglega. Hugsið ykkur hvað álfelgurnar mínar tækju sig vel út í sumar tillandi ofan á nýbónuðu álholufylli.

Gleðilega kvaðratrót

Í dag er hinn hátíðlegi dagur kvaðratrótarinnar, það er sá dagur þar sem dagurinn og mánuðurinn eru bæði kvaðratrótin af síðustu 2 tölunum í ártalinu.

Eins og 03.03.2009 bersýnilega er.

Af þessu tilefni mælist ég til að allir tegri núið og finni afleiðu sjálfs síns í upphafi sálarinnar. Fylkjumst öll saman og látum ekki faldheiti samtímans koma fram á niðurstöðu sem lógískt gengur ekki upp.

Bíð spenntur eftir 04.04.2016.

Sálgasvæði 2

Pirraður HelghanÍ kvöld gerði ég eitthvað sem ég hef aldrei gert áður, og grunaði raun í seint að ég myndi finna sjálfan mig gera.

Ég fór á sérstaka opnun í Elko sem var til þess eins að moka nýjum Playstation 3 tölvuleik í okkur óseðjandi spilara. Ekki nóg með að ég læti sjá mig þarna heldur var ég búinn að forpanta leikinn.

Mér hefur hálf kviðið fyrir að þurfa láta sjá mig í Elko verslun eftir kvöldfréttir og bjóst hálfpartinn við að þurfa að standa í röð svo tímunum skipti til þess eins að fá eintakið mitt afhent. Eintakið sem ég verð að viðurkenna að hafa beðið eftir með svolítið pervertískri eftirvæntingu.

Ég bjóst við að vera umkringdur unglingum í hettupeysum sem réðu ekki við hórmónaflæðið í sér og myndu vera skoppandi og froðufellandi út um alla verslun.

Því fór aldeilis fjarri.

Ég mætti nokkrum mínútum eftir opnunina og kom að tómu bílastæði. Rölti inn í verslunina þar sem þrír starfsmenn tóku á móti mér með bros á vör, spurðu til nafns og afhentu mér mitt eintak enn með bros á vör.

Á leiðinni út mætti ég öðrum karlmanni á þrítugsaldri sem var að laumast til að ná í eintakið sitt.

Nú er svo komið að leikurinn sem ég hef beðið eftir með nokkurri eftirvæntingu, Killzone 2, kemur út á morgun fyrir almenning. En ég kemst ekki í að prófa hann fyrr en í lok vikunnar, horfi bara á hulstrið á meðan.

Fyrir þau ykkar sem halda að ég sé búinn að missa vitið, sem ég sennilega er, prófið að fara á youtube og leita að killzone 2 hd gameplay og reynið að kúka ekki í brækurnar meðan þið horfið á þessi myndbönd.

Buxnalaus neðanjarðarlestarferð

Er ég var að vinna mikilvæga rannsóknarvinnu fyrir núverandi verkefni mitt rakst ég á síðu sem vakti athygli mína.  Buxnalausir föstudagar í vinnunni er hugmynd sem ekki er ný af nálinni. Ég er reyndar ennþá í buxum enda ekki komið hádegi.

Svo virðist sem hópur sem kallar sig Improv Everywhere taki upp á því að vera buxnalaus í neðanjarðarlestinni. Hljómar eins og ágætis hugmynd en hefur þó sína galla.

Þið skiljið, reglulegir buxnalausir vinnudagar myndu á endanum vera fullkomlega eðlilegir. Ég er líka mjög nálægt því að finna upp algjörlega nýja aðferð til að ganga í buxum.

Hugmyndin með þessari buxnalausu neðanjarðarlestarferð var að fólk átti ekkert að kannast við af hverju aðrir væru ekki í buxum og halda því fram að þau þekktu alls ekkert hina aðilana sem einkennilega voru buxnalausir líka.

Það myndi alls ekkert vekja undrun mína ef búnki af hip og kúl fólki væri allt í einu buxnalaust og af einskærri tilviljun skartaði sínum flottustu nærbuxum og sokkum akkúrat á þessum degi. Það væri alveg fullkomlega eðlilegt.

Ég er strax farinn að vinna í að fá þennan hóp hingað heim og plana buxnalausa strætóferð með Strætisvögnum Akureyrar. Það verður rosalegt.

Idol Stjörnuleit – hvort er það?

Fyrir nokkru byrjaði ameríska Idol keppnin á Stöð 2. Sjálfur hef ég lítið sem ekkert séð af þessum þáttum sem eru nú víst komnir í sláandi seríu númer átta. Hef ég haft nokkuð gaman að þessum þáttum og þá sérstaklega að sjá Simon pissa yfir fábjána sem halda þeir geti sungið.

Svo byrjaði íslenska útgáfan af þessum þáttum.

Hvaða hlandklepraði dagskrárgerðarmaður fann upp á nafninu “Idol Stjörnuleit”? Þetta gengur andskotann ekkert upp. Hver gaf leyfi til að nefna þátt með samsulli af orðum úr mismunandi tungumálum?

Enska orðið idol þýðir goð, átrúnaðargoð eða jafnvel skurðgoð. Heitið “idol stjörnuleit” er því ekkert annað en óheppileg endurtekning á nákvæmlega sama hlutnum, svipað og að segja “lesbískur kynvillingur”.

Að hverju eru þau Jón, Björn og Selma að leita – goðstjörnu?

Þetta fer alveg óendanlega í taugarnar á mér og leiðinleg afbökun á móðurmáli okkar. Þjóðverjar kalla þetta t.d. hinu þjála og pínu erótíska nafni “Deutschland sucht den Superstar”.

Var ekki hægt að kalla þetta “Íslenska stjörnuleitin”? Eða er það ekki nægilega “hipp” og “kúl”.

Glötun

Við erum þjóð á barmi glötunnar. Síðan bankahrunið mikla hefur okkur ekki tekist að standa upp. Merkilega er að þegar við erum komin upp á annað hnéð og við að rísa upp aftur eru það okkar eigin forystumenn (fyrrverandi!) sem knésetja okkur aftur. Ekki útlendingar og ekki einhver helvítis alþjóðarkreppa. Við sjálf.

Þegar myndaðist smá andrúm til framfara stígur forsetinn okkar fram og heggur af okkur höfuðið fyrir framan alþjóð. Er hægt að setja forsetann í fjölmiðlabann? Hann er augljóslega ekki viðræðuhæfur og í engum tengslum við raunveruleikann líkt og hinir gömlu pólitíkusarblesarnir. Vill háttvirtur forseti vinsamlegast snúa sér að teboðum með skartgripasölum þangað til við höfum tíma til að “láta hann segja af sér” og ganga til forsetakosninga.

Fyrrverandi forsætisráðherra okkar kom í sjónvarpsviðtal í þætti á BBC í gærmorgun og náði að negla síðasta naglann í líkkistu íslensku þjóðarinnar. Að venju kom hann fram með hroka og yfirdómi en breski spyrillinn leyfði honum ekki að komast upp með nein látalæti. Geir hélt líka áfram að ljúga. Hann sagði t.d. að enginn Íslendingur hefði tapað sparifé sínu, en reyndi svo að leiðrétta sjálfan sig með að segja að sumir Íslendingar hefðu tapað smávegis í ákveðinni gerð af sparnaði. Þarna er heldur betur verið að draga úr vandamálinu. Fullt af Íslendingum tapaði fullt af peningum og Geir veit það fullvel.

Það tók svo botninn úr þegar Geir viðurkenndi eins og barnaskólakrakki gripinn við að reykja Camel fílterslausan að hann hefði ekki talað við Gordon Brown síðan Bretar beittu hryðjuverkalögunum gegn okkur. Jafn vandræðalegt móment í íslenskri pólitík er sennilegast vanfundið og finnst mér merkilegt að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki gert meir úr þessu.

Það kom líka klárlega í ljós hvað íslenskir fjölmiðlar eru lélegir og latir við að gera bakgrunns rannsóknir á viðfangsefnum sínum. Breski spyrillinn var með staðreyndirnar á hreinu og spurði hnitmiðaðra spurninga sem fengu Geir til að núa sér í sætinu í sífellu.

Ég ætla ekki einu sinni að ræða Davíð því framkoma hans á ekki skilið umræðu eða umfjöllun á neinum vettfangi.

Að lokum við ég biðja Alþingi vinsamlegast að fara vinna vinnuna sína. Ég held það sé ekki til of mikils mælst að biðja þingmenn um að gleyma öllu framapoti og smeðjuskap og vinna ötulega í að koma þjóðinni upp úr líkkistunni áður en við verðum grafin lifandi.

Og vilja Sjálfstæðismenn drullast til að taka sig saman í andlitinu áður en ég neyðist til að mæta í Valhöll og staksetja allt þetta pakki. Þið eruð sjálfum ykkar til skammar.

Windows 7 eða KDE

Ok. Windows 7 er næsta útgáfa af Windows sem á að taka við af Vista (sem floppaði algjörlega). Hér er myndband þar sem grunlausir notendur halda að KDE sé nýja útgáfan af Windows…og missa vatn yfir hvað notendaviðmótið er auðvelt og þægilegt. KDE er eitt af mörgum gluggakerfum til handa fyrir Linux notendur.

Linux stýrikerfið lítur betur út, virkar betur, er frítt af vírusum og rokkar í alla staði. Windows er úti. Baráttan um skjáborðin í framtíðinni er á milli Linux og Makka.

Staðreyndin er að Microsoft er sífellt að rembast við að koma fram með nýjungar sem hafa verið til staðar fyrir open source notendur í marga mánuði 🙂 En ef ykkur langar að vita það þá nota ég Gnome dags daglega…en ég hef valið.