Tag Archives: pólitík

X09

Stormy Coast
Creative Commons License photo credit: orvaratli

Á morgun klæðum við okkur upp í fínasta pússið og göngum til kosninga til Alþingis. Af nógu er að huga og ekki hefur verið skortur á misvísandi umræður upp á síðkastið.

7 mánuðir eru frá bankahruninu og enn vantar róttækar aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Það sem er í boði í dag nýtist einungis þeim sem eru búnir að gera langt upp á bak og er til lítils annars en að seinka yfirvofandi gjaldþroti í mörgum tilfellum.

Eina leiðin er leiðrétting á húsnæðislánum, sama hvort það er 20%, 4 milljónir eða endurreikna eftirstöðvar lána útfrá vísitölu fyrir hrun.

Ef það er eitthvað einkennandi fyrir kosningar nú þá er það að vita hvað á ekki að kjósa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið sig með endæmum illa undanfarið og uppvís að grunsamlegum styrkjum og einstöku framtaksleysi. Flokkurinn hefur ekkert nýtt fram að færa og gerir lítið annað en að rangtúlka hugmyndir annarra. Sjálfstæðiflokkurinn auglýsir til dæmis að þeir vilja lækka greiðslubyrði fólks um 50% í nokkur ár og lengja í láninu. Þetta veldur því að greiðlubyrðin verður meiri eftir nokkur ár en hún er í dag – þetta er ótrúlega vanhugsað og ekki lausn frekar en að klippa gat af sokki.

Samfylkingin telur að innganga í Evrópu sé töfralausn sem lætur öll okkar vandamál hverfa með því sama. Þau eru meir að segja farin að beita hræðsluáróðri og segja að ef við sækum ekki um aðild nú muni Evrópusambandið lokast eftir 2010 og erfiðara verði að sækja um. Af hverju skyldi það vera? Er Evrópusambandið kannski sjálft að berjast í bökkunum. Auk þess eru vandamál okkar mun meir aðkallandi en að geta beðið í nokkra mánuði eða jafnvel ár til að sjá hvernig samning við myndum ná. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að komast að því hvernig aðild okkar í Evrópusambandið myndi líta út, en það er ekki nóg að setja allan fókus á þetta eftir kosningar, við þurfum að taka til heima hjá okkur líka.

Dramatískt efnahagshrun kallar á djarfar aðgerðir. Ég bara rétt svo vona að sú ríkisstjórn sem mun sitja hér eftir helgi muni hafa í sér styrk og dirfsku til að takast á rót vandans.

Kjósum rétt.

Glötun

Við erum þjóð á barmi glötunnar. Síðan bankahrunið mikla hefur okkur ekki tekist að standa upp. Merkilega er að þegar við erum komin upp á annað hnéð og við að rísa upp aftur eru það okkar eigin forystumenn (fyrrverandi!) sem knésetja okkur aftur. Ekki útlendingar og ekki einhver helvítis alþjóðarkreppa. Við sjálf.

Þegar myndaðist smá andrúm til framfara stígur forsetinn okkar fram og heggur af okkur höfuðið fyrir framan alþjóð. Er hægt að setja forsetann í fjölmiðlabann? Hann er augljóslega ekki viðræðuhæfur og í engum tengslum við raunveruleikann líkt og hinir gömlu pólitíkusarblesarnir. Vill háttvirtur forseti vinsamlegast snúa sér að teboðum með skartgripasölum þangað til við höfum tíma til að “láta hann segja af sér” og ganga til forsetakosninga.

Fyrrverandi forsætisráðherra okkar kom í sjónvarpsviðtal í þætti á BBC í gærmorgun og náði að negla síðasta naglann í líkkistu íslensku þjóðarinnar. Að venju kom hann fram með hroka og yfirdómi en breski spyrillinn leyfði honum ekki að komast upp með nein látalæti. Geir hélt líka áfram að ljúga. Hann sagði t.d. að enginn Íslendingur hefði tapað sparifé sínu, en reyndi svo að leiðrétta sjálfan sig með að segja að sumir Íslendingar hefðu tapað smávegis í ákveðinni gerð af sparnaði. Þarna er heldur betur verið að draga úr vandamálinu. Fullt af Íslendingum tapaði fullt af peningum og Geir veit það fullvel.

Það tók svo botninn úr þegar Geir viðurkenndi eins og barnaskólakrakki gripinn við að reykja Camel fílterslausan að hann hefði ekki talað við Gordon Brown síðan Bretar beittu hryðjuverkalögunum gegn okkur. Jafn vandræðalegt móment í íslenskri pólitík er sennilegast vanfundið og finnst mér merkilegt að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki gert meir úr þessu.

Það kom líka klárlega í ljós hvað íslenskir fjölmiðlar eru lélegir og latir við að gera bakgrunns rannsóknir á viðfangsefnum sínum. Breski spyrillinn var með staðreyndirnar á hreinu og spurði hnitmiðaðra spurninga sem fengu Geir til að núa sér í sætinu í sífellu.

Ég ætla ekki einu sinni að ræða Davíð því framkoma hans á ekki skilið umræðu eða umfjöllun á neinum vettfangi.

Að lokum við ég biðja Alþingi vinsamlegast að fara vinna vinnuna sína. Ég held það sé ekki til of mikils mælst að biðja þingmenn um að gleyma öllu framapoti og smeðjuskap og vinna ötulega í að koma þjóðinni upp úr líkkistunni áður en við verðum grafin lifandi.

Og vilja Sjálfstæðismenn drullast til að taka sig saman í andlitinu áður en ég neyðist til að mæta í Valhöll og staksetja allt þetta pakki. Þið eruð sjálfum ykkar til skammar.